top of page

KOMIÐ OG DANSIÐ 20 ára !

 

 

Nei, ég dansa ekki ! Þessara orða minnist ég frá danskvöldi í gagnfræðaskólanum þegar ég var 14 ára. Hugguleg stúlka kom til mín þar sem ég stóð og horfði á aðra dansa, og spurði hvort ég vildi dansa við sig. Ég sem aldrei hafði stigið á dansgólf, mörgum kílóum of þungur stóð þarna og varð að svara neitandi. Daginn eftir lofaði ég sjálfum mér að þessar aðstæður ætlaði ég aldrei að upplifa aftur. Ég fór á námskeið hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur og lærði hina hefðbundnu gömlu dansa.

20 ára afmæli KOD 059.JPG

Þegar ég hitti kærustuna mína sem seinna varð eiginkona mín, fórum við í dansskóla og lærðum samkvæmisdansana og síðan í yfir 50 ár höfum við haft dansinn sem tómstundagaman og haft mikla ánægju af. Gegnum tíðina höfum við einnig dansað gamla góða tjúttið sem margir hinna eldri kunna frá yngri árum. Innan IOGT og annarra frjálsra félagasamtaka sem ég hef verið félagi í hef ég reynt að fá dansinn inn í dagskrá þeirra, þar sem ég er þeirrar skoðunar að dansinn sé afar fyrirbyggjandi afl gegn notkun áfengis og annarra vímuefna. Það er alltof algengt að fólk, sérstaklega ungt fólk þorir ekki á dansgólfið nema undir áhrifum áfengis. Þegar fólk dansar er ekki þörf á vímuefnum, dansgleðin kemur í stað allra vímuefna. Dansgleðin er besta víman.


Þegar vinur minn og samstarfsmaður til margra ára í norrænu æskulýðsstarfi hringdi til mín haustið 1991 og spurði hvort ég gæti verið með í að kynna og stofna KOM OG DANS á Íslandi svaraði ég að ég hefði ekki tíma til þess, væri svo upptekin í öðru félagsstarfi, en ég skyldi reyna að fá annað fólk til að taka að sér þetta verkefni. Þegar Sidsel og Johan Fasting komu til Íslands í október 1991 varð ég hinsvegar svo hrifin af stefnu og markmiðum að ég lét undan og gaf kost á mér til stjórnarsetu og hef nú leitt starfsemina í 20 ár.


Mér sýndist svingdansinn vera góð viðbót við aðra dansa og nóg og léttur til að læra og flestir gætu verið með. Með samstarfi við Johan Fasting höfum við byggt upp félagssskap sem varðveitt hefur réttindi og skyldur KOM OG DANS í Noregi og haldið úti dansnámskeiðum fyrir alla aldurshópa víðsvegar um landið. Margir hafa óskað sér að geta án allrar feimni gengið út á dansgólf og dansað af  einhverri kunnáttu. Hin stuttu námskeið Komið og Dansið hafa komið mörgum að gagni sem lítinn tíma hafa haft og talið það kost að þurfa ekki að binda sig til lengri
tíma.

KOMIÐ OG DANSIÐ keypti eigið húsnæði Danshöllina , Drafnarfelli 2, árið 1995 og það hefur sannarlega verið starfseminni mikill styrkur að hafa fast húsnæði til reksturs námskeiðanna og auðveldara að auglýsa upp starfsemi þegar fast húsnæði er til ráðstöfunar. Barnanámskeiðin í grunnskólunum, ásamt námskeiðum sem sérstaklega eru ætluð nemendum fimmtu bekkjar með foreldrum sínum hafa verið vinsæl og er ánægjulegt frá því að segja að veruleg sókn er fyrirhuguð í vetur með þau námskeið með nýlega útskrifuðum leiðbeinendum. Það er ótrúlegt hve margir sem komnir eru til vits og ára hafa ekki notið dansgleðinnar þó þá hafi langað til. Dansnámskeið KOMIÐ OG DANSIð hafa komið vel til móts við þennan hóp með stuttum og auðveldum námskeiðum, og sannast vel að klaufar njóta sín vel.


Hjá KOMIÐ OG DANSIÐ hefur sú regla jafnréttis að bæði dömur og herrar bjóði upp í dans verið í fullu gildi, og það fyrirkomulag á námskeiðunum að skipta stöðugt um dansfélaga hefur gert hópinn fljótt að skemmtilegri heild og feimnin fer af í hita leiksins. Gegnum starfið höfum við keypt töluvert af norskri og sænskri danstónlist sem gott hefur verið að dansa við. Við höfum einnig fengið norska sjónvarpsþætti sem gerðir hafa verið að tilhlutan KOM OG DANS auk þess sem tveir sjónvarpsþættir voru gerðir fyrir íslenska sjónvarpið og þóttu góð auglýsing fyrir starfsemi KOMIÐ OG DANSIÐ. Okkur til mikillrar ánægju komu hingað tvisvar til landsins og spiluðu , norska hljómsveitin Fryda og Gammen sem af því tilefni sungu íslenskan texta við eitt af þeirra vinsælustu lögum.


Gegnum árin hafa hópar félaga sótt dansnámskeið í Noregi og Danmörku og hafa þannig lært og kynnst viðbótardönsum sem skreytt hafa dagskrána. Þá hafa ferðalög innanlands og utan, svokallaðar Dalaferðir verið vinsælar og hrist saman félagana til frekari dáða. Já, tíminn er fljótur að líða og hver skyldi trúa því að samtökin KOMIÐ OG DANSIÐ hafi starfað í 20 ár, hvað þá að við sem verið höfum með frá upphafi séum 20 árum eldri en þá.


Á þessum tímamótum er ástæða til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem lagt hafa starfinu lið í gegnum tíðina, allur sá stuðningur er ómetanlegur, en vitundin um að góðu starfi er lagt lið og árangur af verkunum er oft besta þakklætið. Við erum þeirrar ánægju aðnjótandi að Sidsel og Johan Fasting verða ásamt góðum hópi norskra félaga í KOM OG DANS, gestir okkar á 20 ára afmælishelginni 27. – 31.október. Eflum þátttöku fólks í dansi og lifum lífinu lifandi. Aldurinn skiptir engu máli ef heilsan er góð og hugarfar jákvætt.

Gunnar Þorláksson.

bottom of page